Skuldatryggingarálag á skuldabréf íslensku bankanna hefur hækkað mikið undanfarna daga, eða um 10-16% það sem af er júlímánuði, og stefnir í svipuð gildi og þegar hæst lét í lok mars. Álag á bréf Kaupþings er nú 9,25% og Glitnis litlu lægra. Álag á bréf Landsbankans er hins vegar um 6,0%, samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum. Athygli vekur að á sama tíma hefur álag á bréf íslenska ríkisins lækkað um 7%.
Í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans segir að markaður með skuldatryggingar íslensku bankanna sé fremur ógagnsær og viðskipti strjál þannig að erfitt sé að átta sig á ástæðum fyrir breytingum á skuldatryggingarálagi þeirra. Líklegt megi þó telja að hækkunin á álaginu undanfarið tengist áfram lítilli trú markaðsaðila á fjármálageiranum í heild sinni.
Hlutabréf banka hafi lækkað um allan heim og neikvæðar fréttir og óvissa um framtíð lánasjóðanna Freddie Mac og Fannie Mae viðhaldi mikilli óvissu. Við slíkar aðstæður forðist fjárfestar banka, íslenska sem erlenda.