Nýherji tapaði 432 milljónum á fyrri hluta ársins, samanborið við 209 milljóna hagnað á sama tíma í fyrra. Í tilkynningu félagsins segir að afkoma kjarnastarfsemi Nýherja og starfsemi dótturfélagsins Applicon erlendis hafi verið ágæt, en afkoma af fjárfestingum í nýrri starfsemi undir væntingum. 455 milljóna gengistap var á tímabilinu.
Ef bornar eru saman rekstrartölur fyrri árshelmings nú og í fyrra eru þær allólíkar. Þannig var rekstrarhagnaður 64% af því sem var í fyrra, og fjármagnsgjöld voru nú 669 milljónir en í fyrra voru 11 milljóna fjármagnstekjur. Rekstrarkostnaður tvöfaldaðist og launagjöld jukust um 80%, en starfsmönnum fjölgaði úr 453 í 755.
Tapið á nýliðnum ársfjórðungi nam 91 milljón samanborið við 104 milljóna hagnað á sama tíma í fyrra. Söluaukning á milli ára nemur 42%.
Eignir í lok júní námu níu milljörðum, samanborið við 5,7 milljarða í lok ársins 2007. Langtímaskuldir meira en tvöfölduðust á sama tíma og námu nú 2,6 milljörðum, og skammtímaskuldir jukust um 44% og nema nú 3,9 milljörðum. Eigið fé nemur 2,5 milljörðum.
Nýherji hefur vaxið og breyst mikið á rúmu ári, og mörg fyrirtæki hafa bæst í samstæðuna. Viðfangsefni á þriðja ársfjórðungi verður að auka samlegð í rekstri og arðsemi af fjárfestingum.
Rekstrarhorfur erlendis eru taldar ágætar á síðari árshelmingi, en þar starfa 180 af 755 starfsmönnum. Kjarnastarfsemi hérlendis er sögð traust.