Heildarskuldir íslenskra heimila við innlánsstofnanir námu 947 milljörðum króna í júní samkvæmt nýjum tölum Seðlabanka Íslands. Heildaraukning útlána til heimila jukust aðeins um rétt rúma 3 milljarða frá því í maí, að því er kemur fram í ½5 fréttum Kaupþings.
Af heildarútlánum námu verðtryggð lán um 63% en það hlutfall hefur dregist saman frá því að vera 65% bæði í apríl og maí. Hins vegar hafa gengisbundin lán sótt í sig veðrið og hlutdeild þeirra í heildarlánum hækkað töluvert það sem af er ári. Gengisbundin lán voru í júní 23,6% af heildarlánum innlánsstofnana til heimila.
Greiningardeild Kaupþings segir, að mikil ásókn hafi verið í gengisbundin lán frá árinu 2006, m.a. vegna hárra vaxta í íslenskum krónum. Mikla aukningu gengisbundinna lána undanfarna mánuði megi einkum skýra með því mikla gengisfalli sem orðið hefur á íslensku krónunni síðan í mars.
Hlutdeild gengisbundinna lána af heildarútlánum innlánsstofnana til heimila jókst frá því að vera 18,6% í febrúar í tæplega 22% í mars. Gengislækkun þyngir greiðslubyrði vegna gengisbundinna lána mjög þar sem áhrif gengisbreytinga koma strax fram í afborgunum.