Greiningardeild Kaupþings, spáir því að ársverðbólga verði í júli 13,2% og gefur sér þær forsendur að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,6% í júlí. Er í spánni talið að útsöluáhrif hafi meiri áhrif til lækkunar VNV en áður. Hækkun komi frá liðnum ferðir þó lækkun á heimsmarkaðsverði olíu geti dregið úr áhrifunum.
Kaupþingsmenn spá því að verðbólgan nái hámarki sínu í næsta mánuði í um 14% og er það í samræmi við aðrar spár.
Í spánni segir:
„Þróun mála að undanförnu, s.s. gengisveiking og hrávöruverðshækkanir, hafa komið niður á framlegð fyrirtækja sem hvetur þau til verðhækkana. Í þeim vöruflokkum sem neytendur eru næmir fyrir verðbreytingum, t.d. í tilviki bifreiða, bjóða aðstæður hins vegar ekki upp á miklar verðhækkanir. Heimilin í landinu eru farin að halda fastar um pyngjuna og fresta kaupum á ýmis konar neysluvörum. Þetta mun halda aftur af verðbólguþrýstingi í neysluvarningi á næstu mánuðum. Gefi krónan frekar eftir eru áframhaldandi hækkanir þó óumflýjanlegar í flestum vöruflokkum. “