Ef íslenskir stjórnendur ætla að spila eftir leikreglunum getur verið að þeir þurfi að afskrifa tugi eða hundruð milljarða á næstu mánuðum og árum. Þessar afskriftir gætu bæst ofan á lélega eða jafnvel afleita afkomu félaganna.
Svokölluð viðskiptavild hefur margfaldast í efnahagsreikningum margra félaga og er yfir helmingur eigna sumra félaga í Kauphöllinni. Viðskiptavild er óefnisleg afgangsstærð sem verður til við kaup eða samruna fyrirtækja. Viðskiptavildin er til vitnis um hæfi fyrirtækja til að ávaxta sig betur en fyrirtæki í sambærilegum rekstri.
Stefán Svavarsson endurskoðandi segir að það sé þversögn í því að halda viðskiptavild óhreyfðri í bókhaldi ef reksturinn sem henni tengist er í núlli, tapi eða með lítilli arðsemi. Greiningardeildir bankanna spá mörgum þeirra fyrirtækja sem hafa hvað mesta viðskiptavild tapi eða lélegri afkomu. Spár um lélega afkomu samfara mikilli eign fyrirtækja í viðskiptavild hljóta að leiða hugann að því hvort spunameistarar hlutabréfamarkaðarins hafi sniðið fyrirtækjum stakk eftir vexti.
Líklegt er að ekki hafi öll útrásarkaup íslenskra fyrirtækja gengið eftir en þrátt fyrir það hafa verið nær engar afskriftir á viðskiptavild hjá félögum í Kauphöllinni á síðustu árum. Ágúst Ólafsson, forstöðumaður fjármálaráðgjafar Deloitte, segir að stjórnendur hafi hætt að afskrifa viðskiptavild eftir að alþjóðastaðlar um viðskiptavild gáfu heimild til þess að byggja á virðisrýrnunarprófi.