Danska vinnueftirlitið hefur gert alvarlegar athugasemdir við vinnuaðstæður á lúxushótelinu D'Anglaterre við Kóngsins Nýjatorg í Kaupmannahöfn. Hefur hótelinu verið gert að fá ráðgjafa til að aðstoða við úrbætur, að því er kemur fram í fréttabréfinu 3F, sem fjallar um öryggismál á dönskum vinnustöðum.
Fram kemur í fréttabréfinu að málning flagnar af loftinu í bakaríi hótelsins. Þá er líkamlegt álag starfsmanna mikið, en þeir þurfa að burðast með stórar blómaskreytingar og þunga vínkassa.
Íslenska fjárfestingarfélagið Nordic Partners keypti Hotel D'Angleterre í nóvember á síðasta ári.