Forstjóri olíufyrirtækisins TNK-BP í Rússlandi hefur yfirgefið landið eftir það sem hann kallar langvarandi áreitni af hálfu rússneskra fjárfesta í fyrirtækinu. TNK-BP er í eigu breska olíurisans BP og hóps rússneskra milljarðamæringa. Robert Dudley segist munu stýra félaginu áfram þrátt fyrir að dvelja ekki lengur í Rússlandi.
Leiðir hann líkur að því að rússnesku hluthafarnir hafi beitt rússneska ríkinu fyrir sig; að fyrirtækið hafi þurft að sæta fjölda ónauðsynlegra rannsókna af hálfu yfirvalda auk þess sem Dudley hafi átt í miklum erfiðleikum með að fá atvinnuleyfi sitt endurnýjað, þrátt fyrir að vera forstjóri stórs olíufyrirtækis í Rússlandi.
Rússnesku hluthafarnir segjast móðgaðir vegna ásakana Dudleys um áreitni og sögðu tíma til að skipta um forstjóra.