Spá lítilli styrkingu krónu

Gengisvísitala krónunnar verður í kringum 158 stig um áramótin, gangi spá greiningardeildar Glitnis eftir. Í spánni er gert ráð fyrir því að gengi evrunnar verði 123 krónur í árslok og Bandaríkjadals 79 krónur. Gengi evrunnar er nú um 127 krónur og dollarans 81 króna.

Á nýju ári reiknar greiningardeildin með nokkuð örri gengishækkun krónunnar samhliða betra ytra jafnvægis í þjóðarbúskapnum og batnandi ástandi á fjármálamörkuðum. Þá segir í spánni að gengi krónu hækki um 12% á fyrri hluta næsta árs og 8% á síðari hluta ársins. Gengisvísitalan verði í kringum gildið 130 í lok næsta árs, evran í 101,5 krónum og dalurinn í ríflega 65 krónum.

Vaxtalækkanir fyrr en áður var talið

Greiningardeildin telur jafnframt að Seðlabankinn sjái svigrúm til vaxtalækkunar fyrr en gert er ráð fyrir í nýrri spá bankans. „Við reiknum með að gengisáhrif vegna veikingar krónu á árinu séu þegar að mestu komin fram í verðlagi og að verðbólga nái hámarki í haust. Þá reiknum við með að það dragi úr verðbólguþrýstingi eftir því sem líður á árið. Því til viðbótar eru þegar komin fram skýr merki þess að farið sé að hægja á vexti innlendrar eftirspurnar, og raunar talsvert hraðar en gert er ráð fyrir í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans,“ segir í Morgunkorni greiningardeildarinnar. 

Því er í spánni gert ráð fyrir því að Seðlabankinn hefji lækkunarferli stýrivaxta sinna í nóvember og lækki vexti um 0,50 prósentustig í 15%. Hins vegar séu verðbólguhorfur nú verri á seinni hluta spátímans en greiningardeildin hafði áður gert ráð fyrir. Af þeim sökum reiknar hún með hægara lækkunarferli vaxta nú og spáir því að stýrivextir verði 9% í lok næsta árs.

Spá Greiningar Glitnis á .pdf formi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka