Eftirlaunasjóður norska ríkisins, öðru nafni olíusjóðurinn, hefur ekki ávaxtast vel undanfarið ár. Á þeim tíma hafa 320 milljarðar norskra króna verið greiddar í sjóðinn, jafnvirði nærri 5100 milljarða íslenskra króna, en hann hefur hins vegar aðeins vaxið um 51 milljarð norskra króna.
Norska blaðið Aftenposten fjallar um þetta í dag og segir að þrátt fyrir að olíuverð sé í methæðum hafi það ekki komið fram í olíusjóðnum. Þangað rennur meirihluti teknanna, sem norska ríkið hefur af olíuvinnslu í efnahagslögsögu sinni.
Ýmsar ástæður eru fyrir því að norsku olíupeningarnir virðast gufa upp. Féð er að stórum hluta fjárfest í erlendum verðbréfum og þar sem gengi norsku krónunnar hefur hækkað verulega síðasta árið hefur verðgildi sjóðsins í norskum krónum rýrnað.
Þá hefur ávöxtun á alþjóðlegum fjármálamarkaði ekki verið með besta móti svo vægt sé til orða tekið. Viðskiptavefurinn e24.no upplýsti í síðustu viku, að sjóðurinn hefði m.a. fjárfest í skuldabréfum tengdum bandaríska húsnæðislánakerfinu.
Haft er eftir Siv Jensen, formanni Framfaraflokksins, að nær væri að nota peningana til að byggja upp innviði landsins, svo sem vegakerfið, sem sé eitt það versta í Evrópu.
Heildarverðmæti olíusjóðsins var í lok mars 1945 milljarðar norskra króna, jafnvirði nærri 31 þúsund milljarða íslenskra króna.