Svartsýni ríkir um að samkomulag náist í tollaviðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem hafa staðið yfir í Genf í Sviss undanfarna níu daga. Tvær ríkjafylkingar takast þar á um verndartolla og fara Bandaríkin fyrir annarri fylkingunni og Kínverjar og Indverjar fyrir hinni.
Viðræðulotan er kennd við Doha, höfuðborg Katar, þar sem hún hófst árið 2001. Markmiðið er einkum, að draga úr verndartollum í landbúnaði og greiða þannig fyrir heimsviðskiptum með landbúnaðarvörur.
Bandaríkjamenn saka einkum Indverja að draga taum þarlendra bænda og geri ekki nóg til að opna þarlendan markað. Þessu vísar Kamal Nath, viðskiptaráðherra Indlands, á bug og sagði að Bandaríkin væru ýta undir eigin viðskiptahagsmuni en Indverjar væru að reyna að vernda afkomu bænda.