George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur undirritað frumvarp þess efnis að stutt verði við þá 400.000 húsnæðiseigendur í Bandaríkjunum sem eiga í vanda.
Frumvarpið, sem á einnig að stuðla að stöðugleika fjármálakerfisins, var undirritað án allrar viðhafnar, en það var samþykkt af öldungadeild þingsins fyrir viku.
Í því felst að húsnæðiseigendur, sem geta ekki greitt afborganir sínar, geti fengið endurfjármögnun á ríkisstyrktum og hagstæðari kjörum, í stað þess að glata heimilum sínum. Þetta er því eins konar líflína til lánasjóðanna Fannie Mae og Freddie Mac og setur einnig þrengri ramma utan um ríkisstyrktu sjóðina tvo.
Áætlað er að húsnæðismálanefnd yfirvalda geti tryggt 300 milljarða dala virði af slíkum lánum. Lánveitendurnir þurfa að upplýsa hversu háar afborganir lánþegar gætu þurft að greiða undir skilyrðum frumvarpsins.