Væntingar evrópskra neytenda hafa ekki verið minni síðan eftir árásirnar á Bandaríkin þann 11.september 2001. Snarhækkandi hrávöruverð og áframhaldandi styrking evrunnar gagnvart Bandaríkjadal valda áhyggjum meðal neytenda og ráðamanna fyrirtækja.
Á vef Bloomberg kemur fram að væntingavísitala Evrópuráðsins féll um 5,3 stig og hefur ekki fallið viðlíka mikið síðan í október 2001. Mesta verðbólga á evrusvæðinu í 16 ár, til viðbótar við lánsfjárkreppuna veldur seðlabanka Evrópu vandræðum.
Evran veiktist gagnvart dollaranum við þessi tíðindi. Fyrr í þessum mánuði kom fram að ekki hefur dregið meira úr framleiðslu á evrusvæðinu síðan í júlí 2003. Væntingarnar, sem og neikvæð gögn um framleiðslu og einkaneyslu, benda til kreppuverðbólgu, verðbólgu samhliða efnahagssamdrætti.