Olíufélög hagnast vel um þessar mundir. Í morgun birti hollenska félagið Shell uppgjör sem sýndi 11,6 milljarða dala hagnað á öðrum ársfjórðungi en bandaríska félagið Exxon Mobil bætti um betur og hagnaðist um 11,68 milljarða dala. Það svarar til 930 milljarða króna eða 118 þúsund króna á sekúndu.
Þetta er Bandaríkjamet í gróða á einum ársfjórðungi. Fyrra metið átti Exxon einnig, 11,66 milljarðar dala á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Afkoman nú var þó ekki eins og góð og sérfræðingar á Wall Street höfðu spáð og gengi bréfa félagsins lækkuðu um 2% í viðskiptum áður en kauphöllin á Wall Street var opnuð í dag.