Hagnaður hluthafa Kaupþings eftir skatta á öðrum ársfjórðungi nam 15,4 milljörðum króna samanborið við 25,5 milljarða á sama tímabili 2007. Fyrri hluta ársins nemur hagnaður bankans eftir skatta 34,1 milljarði en var 45,8 milljarðar fyrstu sex mánuði síðasta árs.
Greining Glitnis spáði því að hagnaður Kaupþings yrði 13,8 milljarðar á öðrum ársfjórðungi.
Arðsemi eigin fjár á fyrri helmingi ársins var 19,8% á ársgrundvelli en var 32% sama tímabil 2007. Arðsemin var 16,1% á öðrum ársfjórðungi en var 36,6% á sama tímabili í fyrra. Grunntekjur (hreinar vaxtatekjur og þóknanatekjur) jukust um 15,3% og námu 73,4 milljörðum á fyrri helmingi ársins. Innlán jukust um 400 milljarða öðrum ársfjórðungi og innlán sem hlutfall af útlánum til viðskiptavina jukust úr 36% í 44%.
Eigið fé hluthafa jókst um 78,6 milljarða á fyrri helmingi ársins og eiginfjárhlutfall var 11,2%. Heildareignir námu 6604 milljörðum króna í lok júní og jukust um 23,5% í íslenskum krónum en drógust saman um 9% í evrum frá áramótum.
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, segir í tilkynningu að rekstur bankans gangi vel og mest sé um vert er að bankanum hafi tekist að verja eiginfjár- og lausafjárstöðu sína. Gengisvörn bankans og verðtryggðar eignir í eignasafni hans hafi varið bankann fyrir óróa í hagkerfi Íslands.
Þá hafi gengið mjög vel að afla innlána sem hafi aukist 28% á öðrum ársfjórðungi og horfur séu á því að þau markmið bankans náist að hlutfall innlána á móti útlánum til viðskiptavina komist yfir 50% fyrir árslok. Bankinn sé því vel fjármagnaður og lausafjárstaðan traust.
Loks segir Heiðar Már að Kaupþing sé ekki frekar en aðrir bankar ónæmt fyrir þeim erfiðleikum sem nú einkenni alþjóðlega fjármálamarkaði. Hins vegar sé rekstur bankans landfræðilega vel dreifður, áhættustýring bankans öflug og gæði eigna enn mjög mikil. Stjórnendur Kaupþings telji eignasafn bankans sé vel í stakk búið til að mæta áframhaldandi erfiðleikum á fjármálamörkuðum.