Lárus Welding, forstjóri Glitnis, segir hagnað Glitnis og annarra banka í takt við væntingar miðað við það umhverfi sem sé núna.
Glitnir skilaði 15,4 milljarða króna hagnaði fyrir skatta að teknu tilliti til gengishagnaðar og verðbólgu á fyrri helmingi ársins. Án þess væri hagnaður fjörutíu milljarðar.
Lausafjárstaða bankans er um 900 milljarðar sem þykir gott. Lárus segir þó ekki á döfinni að auka útlán bankanna enda hafi efnahagsástandið dregið úr eftirspurn. Hann segir langtímahorfur góðar í efnahagsmálum almennt. Ríkisstjórn, Seðlabanki og atvinnulíf vinni saman að heilindum.
Hann telur evru ekki lausnina á efnahagsvandanum í augnablikinu þótt það væri jákvætt til lengri tíma litið að vera hluti af stærri heild. Núna þurfi þó að efla gjaldeyrisforða þjóðarinnar og skynsamlegt væri að taka lán til að efla gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans.