Atvinnuleysi í Bandaríkjunum hefur ekki verið meira í yfir fjögur ár og mælist nú 5,7%. Sjöunda mánuðinn í röð gætti uppsagna hjá fyrirtækjum, en þær voru þó umfangsminni en greinendur áttu von á. Þetta kemur fram á vef BBC.
Vinnumálastofnun Bandaríkjanna sagði 51.000 störf, utan landbúnaðargeirans, hafa glatast. Hagfræðingar áttu von á 75.000 starfa fækkun, en sögðu tölurnar eigi að síður gefa veika stöðu efnahagsins til kynna.
Í nokkrum greinum fjölgaði störfum lítillega, í opinberri stjórnsýslu, heilsugæslu og menntageiranum.
Vinnumálastofnun gaf einnig út endurskoðaðar tölur síðustu tveggja mánaða. Bráðabirgðatölur sýndu ofmetið atvinnuleysi um sem nemur 15.000 störfum í maí og 11.000 störfum í júní. Þrátt fyrir minni uppsagnir eru þó engin merki uppi um að fyrirtæki leggist í mannaráðningar að nýju í bráð. halldorath@mbl.is