Virðisrýrnum útlána bankanna, þ.e. greiðslur í afskriftarsjóði vegna afskrifaðra lána, eða lána sem útlit er fyrir að þurfi að afskrifa, nam 25,1 milljarði króna á fyrri helmingi þessa árs, en á sama tímabili í fyrra nam virðisrýrnunin 5,6 milljörðum króna. Ekki er gefið upp hve stór hluti þessarar upphæðar eru raunverulegar afskriftir á lánum, en ljóst má vera að um er að ræða nokkra milljarða króna.
Samanlagður hagnaður bankanna á fyrri helmingi ársins nam 79 milljörðum króna, en á sama tímabili í fyrra nam hann 89,6 milljörðum króna.
Bönkunum tókst að verja sig fyrir áhrifum vaxandi verðbólgu og lækkandi gengis krónu og jukust hreinar vaxtatekjur bankanna umtalsvert vegna verðbólguáhrifa. Samanlagðar hreinar vaxtatekjur bankanna námu 116 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 70,2 milljarða króna í fyrra.
Bankarnir hafa styrkt stöðu sína við erfitt efnahagslegt árferði og dregið m.a. úr skuldsetningu og hafa Kaupþing og Landsbanki aukið til muna hlutfall innlána í fjármögnun sinni með erlendu innlánsreikningunum Icesave og Kaupþing Edge.
Landsbankinn sker sig frá hinum bönkunum tveimur hvað varðar arðsemi eigin fjár, sem var 35%, samanborið við 17% hjá Glitni og 19,8% hjá Kaupþingi. Þá var kostnaðarhlutfall Landsbankans, þ.e. hlutfall kostnaðar á móti tekjum, umtalsvert lægra en hjá hinum bönkunum.