Breska tímaritið Euroweek segir að svo virðist sem alþjóðleg matsfyrirtæki séu haldin kvalalosta og pynti íslensku bankana. Í hvert skipti, sem matsfyrirtækin fari fram á að bankarnir geri eitthvað verði þeir við því og þá komi fram nýjar kröfur.
Tímaritið vísar til tilkynningar frá Standard & Poor's um að það muni áfram miða við neikvæðar horfur hjá Glitni. Þetta sýni að matsfyrirtækin hafi á undanförnum tveimur árum fært markmiðin, sem íslensku bankarnir þurfi að keppa að.
Glitnir hafi komist að raun um að það sé sama hvað bankinn geri, hann fái ekki jákvætt mat. Tekur Euroweek nokkur dæmi um þetta.
Blaðið segir ekkert sé að því, að matsfyrirtæki taki ný atriði með í reikninginn komi það bæði fjárfestum og verðbréfaútgefendum betur ef markmiðin, sem fyrirtækjum er ætlað að stefna að, séu skýrari Lánshæfismatinu sé jú ætlað að auðvelda fjárfestum lífið en það sé ekki raunin ef stöðugt er verið að færa markalínuna.
Tímaritið líkir þessu við raunir Tantalusar, sonar gríska guðsins Seifs. Hann stal ódáinsfæðu guðanna sem refsuðu honum með því að þola eilíft hungur og þorsta. Þegar hann beygir sig niður til að drekka úr ánni sem hann stendur í lækkar vatnsborðið og þegar hann teygir hendurnar upp eftir ávöxtum á greinunum fyrir ofan hann hækka greinarnar. Blaðið klikkir út með að segja, að Tantalus kunni að hafa verðskuldað refsingu sína en það geri íslensku bankarnir ekki.