Enn mun hægja á efnahagslegum umsvifum í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, samkvæmt nýrri mælingu á samsettum leiðandi hagvísum stofnunarinnar.
Vísitala sem sett er saman úr hagvísunum mældist 96,8 stig í júnímánuði sem er lækkun um 0,6 stig frá mánuðinum á undan og 5 stigum lægra en í sama mánuði í fyrra. Þegar vísitalan mælist undir 100 stigum og fer auk þess lækkandi er það til marks um að hægja muni á umsvifum en vísitalan er hönnuð til þess að gefa vísbendingar um efnahagsþróun komandi mánaða.