Staða íslenskra heimila var sterk við upphaf nýhafinnar niðursveiflu. Kaupmáttur og eignaverð voru í hámarki, hvort sem litið er til íbúðaverðs, hlutabréfa eða gengis krónunnar. Þau er því nokkuð góðri stöðu til að taka á sig skell. Þetta skrifar Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis í Morgunkorni í dag.
Farið er yfir helstu þætti hinnar neikvæðu efnahagsþróunar sem hefur átt sér stað undanfarið og sett mark sitt á rekstrarreikning heimilanna. Þar ber helst að nefna rýrnun kaupmáttar um 4,5% það sem af er ári og lækkun eignaverðs.
„Meirihluti sparnaðar heimilanna er bundinn í húsnæði en húsnæðisverð hefur lækkað nokkuð það sem af er ári. Skuldirnar hafa aukist á móti en 86% lána heimilanna eru verðtryggð og hækka því ört í jafn mikilli verðbólgu og nú er. Þá eru 13% lána heimilanna gengisbundin en sá hluti hefur vaxið hvað hraðast undanfarið vegna gengislækkunar krónunnar.“
Þá sýnir væntingavísitala Gallup mestu svartsýni neytenda frá upphafi mælinga árið 2001. Heimilin hafa sýnt þessa líðan í verki með því að draga úr neyslu sinni. Með því móti hefur dregið úr þenslunni og viðskiptahallanum, en neysla heimilanna vegur um 60% af landsframleiðslu.
Mestu erfiðleikarnir með atvinnuleysi
Greining Glitnis spáir því að mestu erfiðleikarnir komi með vaxandi atvinnuleysi, sérstaklega ef því fylgir langvarandi tekjumissir.
„Í ljósi þess að við spáum að atvinnuleysi aukist ekki nema lítillega í núverandi niðursveiflu er hér ekki um stóran áhyggjuþátt að ræða. Reiknum við með því að atvinnuleysi aukist úr 1,0% í fyrra í 3,8% árið 2010,“ segir í Morgunkorni.