Danska fasteignafélagið Keops Development, sem um tíma var í eigu Íslendinga, á nú við mikinn rekstarvanda að stríða og getur ekki greitt iðnaðarmönnum laun.
Fréttavefur Børsen segir, að Keops sé að byggja nýtt hús fyrir dómstól í Næstved á Sjálandi. Børsen hefur eftir dómsforsetanum að þegar hann ætlaði í morgun að skoða hvernig framkvæmdunum liði hafi smiðir og aðrir starfsmenn verið á bak og burt. Ástæðan var sögð sú, að Keops hefði ekki staðið við skuldbindingar um greiðslu launa.
Keops Development var hluti af danska fasteignafélaginu Keops, sem Stoðir, síðar Landic Properties, yfirtóku á síðasta ári. Landic seldi Keops Development í maí sl.
til danska fjárfestingarfélagsins Stones Invest.