Aðildarríki OPEC, samtaka olíuútflutningsþjóða, högnuðust álíka mikið á fyrri helmingi ársins og á síðasta ári í heild sinni. Þannig var rekstrarafgangur ríkjanna 645 milljarðar dala, eða 52.664 milljarðar króna. Hækkandi olíuverð og metframleiðsla skýra þessa afkomu.
Með þessum vexti yrði hagnaður ársins 1.245 milljarðar dala, samanborið við 671 milljarða í fyrra. Fimmtungslækkun olíuverðs undanfarna daga er ekki talin líklega til að draga úr þessum gróða að ráði.
Fram kemur á vef Financial Times að rjúkandi olíuverð hafi meiri áhrif í Flóanum heldur en annars staðar á heimskringlunni, þar eru ýmis milljarðadalaverkefni í vinnslu. Þá hafa fjárfestingasjóðir í ríkiseigu aukið starfsemi sína, ekki síst í ljósi lækkandi hlutabréfaverðs annars staðar í heiminum.
Viðmælendur FT benda þó á að takmörk séu fyrir hversu mikinn olíuhagnað Flóaríkin geta innbyrt. Aukinn sparnaður í öðrum heimshlutum muni að einhverju leyti draga úr áframhaldandi vexti.
Ýmsir ráðamenn í aðildarríkjum OPEC í Miðausturlöndum hafa talað fyrir minni opinberum útgjöldum í því skyni að draga úr verðbólgu sem hefur víða náð tveggja stafa tölu og veldur vaxandi áhyggjum.