Seigla ehf. hlaut í vikunni nýsköpunarverðlaun á sjávarútvegssýningin Norfishing 2008 í Þrándheimi í Noregi. Seigla hlaut fyrstu verðlaun fyrir þá nýjung að útbúa hraðfiskibáta með fellikjöl. Verðlaunin voru veitt af norska sjávarútvegsráðherranum, Helgu Pedersen við athöfn um borð í hafrannsóknarskipinu G.O. Sars. Verðlaunin eru listaverk eftir norska listamanninn Karl Erik Harr, ásamt 100.000 norskum krónum, samkvæmt tilkynningu.
Fellikjölurinn hefur verið í þróun hjá Seiglu ehf. í nokkur ár. Hann hefur verið settur í alla stærri báta hjá fyrirtækinu nánast frá upphafi. Kjölurinn sem Seigla hefur þróað er hægt að setja niður, þegar báturinn er á veiðum og draga inn þegar báturinn er á siglingu.
„Með þessu eru sameinaðir kostir hraðbáts og báts með kjöl en með því að draga kjölinn inn, eykst hraði og viðnám minnkar sem leiðir af sér minni olíueyðslu. Með því að setja kjölinn niður eykst stjórnhæfni bátsins, beygjuradíus minnkar, rek minnkar stórlega og starfsumhverfi starfsmanna um borð verður þægilegra," samkvæmt fréttatilkynningu.