Útlánatapið 24 milljarðar

Endanlega töpuð útlán stærstu viðskiptabankanna þriggja gætu numið rúmum 24 milljörðum króna á þessu ári, sé miðað við uppgjör fyrri helmings ársins. Þetta kemur fram í tölum Fjármálaeftirlitsins þar sem samanlögð fyrrihlutauppgjör eru skoðuð á ársgrundvelli og miðað er við áætlaða stöðu afskriftareikninga. Sambærilegt tap vegna útlána nam 7,8 milljörðum árið 2007.

Þannig má ætla að hlutfall útlána til viðskiptavina sem tapist endanlega verði um 0,3%, samanborið við um 0,1% á árunum 2006 og 2007. Þetta hlutfall náði lágmarki árið 2004, en það má einnig rekja til rúmlega tvöföldunar á útlánum bankanna til viðskiptavina, enda það ár sem bankarnir buðu fyrst íbúðalán í samkeppni við Íbúðalánasjóð.

Greint hefur verið frá því í Morgunblaðinu að framlög Glitnis, Kaupþings og Landsbankans í afskriftasjóði voru talsvert hærri á fyrri helmingi þessa árs en í fyrra, eða um 28 milljarðar. Sé svipuðum takti viðhaldið á seinni helmingi árs má ætla að framlög í afskriftasjóði vegna útlána nemi yfir 56 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum FME. Það yrði þreföldun frá því í fyrra.

Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir afskriftareikninginn í raun vera leiðréttingu á stöðu útlána á hverjum tímapunkti. Endanlega afskrifuð útlán hafi reynst vera í góðu samræmi við upphaflegt mat á afskriftaþörf þannig að jafnan séu hlutfallslega óverulegar fjárhæðir tekjufærðar úr afskriftareikningi. Gengissveiflur á fyrri helmingi þessa árs og fyrri ára hafi áhrif á gengisbundnar fjárhæðir útlána og afskriftareikninga móðurfélaga og erlendra dótturfélaga. Í sögulegu samhengi geti því samanburður milli ára verið vandasamur.

Minni taphætta af íbúðalánum

Samsetning útlána bankanna síðustu fjögur ár er allt önnur en hjá forverum þeirra fyrir þann tíma. Útlánaáhætta er nú dreifðari, bæði landfræðilega og með íbúðalánum.

„Söguleg reynsla er fyrir því að íbúðalán fela í sér mun minni taphættu en almenn útlán. Þar af leiðandi er líklegt að núverandi útlánasamsetning leiði til þess að afskriftaframlög íslensku bankanna verði líkari því sem gerist í nágrannalöndunum,“ segir Ragnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK