Enn er ósvarað fjölda fyrirspurna og alvarlegra athugasemda sem beint hefur verið til Fjármálaeftirlitsins er varða lögmæti samrunaferlis Sparisjóðs Skagafjarðar og Sparisjóðs Mýrasýslu og meðferðar stofnfjárhluta og lögmæti aðalfundar Sparisjóðs Skagafjarðar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hópur stofnfjáreigenda í Sparisjóði Skagafjarðar hafa sent frá sér.
„Almennir stofnfjárhafar í Sparisjóði Skagafjarðar fóru margítrekað fram á
það við Fjármálaeftirlitið að það hlutaðist til um að farið yrði að lögum í
aðdraganda yfirtöku Sparisjóðs Mýrasýslu og tengdra aðila á Sparisjóði
Skagafjarðar. Þá var margsinnis óskað eftir því að FME færi ofan í gjörninga manna
er að yfirtökunni stóðu í ljósi alvarlegra og rökstuddra athugasemda um meint ólögmæti
þeirra. Jafnframt var óskað eftir því við viðskiptaráðherra að hann beitti sér
fyrir því að FME rannsakaði málið og svaraði erindum og fyrirspurnum sem til
þess hafði verið beint. Fyrstu viðbrögð bárust hinsvegar ekki fyrr en 7 mánuðum
eftir yfirtökuna í formi staðfestingar á samruna sparisjóðanna, segir ennfremur í yfirlýsingunni.