Verð á matvöru á heimsmarkaði hefur verið að lækka umtalsvert undanfarið og hefur kornverð ekki verið lægra frá áramótum. Í frétt Financial Times segir að miklar hækkanir í sumar hafi m.a. komið til vegna flóða í Bandaríkjunum, sem óttast var að myndu draga mjög úr matvælaframleiðslu þar í landi. Nú hefur hins vegar komið á daginn að bandarískir bændur munu geta framleitt mun meira af kornmeti en óttast var. Verð á korni hefur því lækkað um 37% frá því í júní, þegar verðið var sem hæst og verð á soja og hveiti hefur lækkað umtalsvert sömuleiðis.
Þessi þróun mun koma fátækari þjóðum til góða af augljósum ástæðum, en Vesturlönd munu sömuleiðis taka henni opnum örmum, enda mun lækkandi matvælaverð væntanlega hafa áhrif til lækkunar verðbólgu.