Hagnaður Icelandair Group eftir skatta var 395 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi en var 205 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Heildarvelta félagsins á öðrum ársfjórðungi 2008 var 29 milljarðar króna og jókst um 79% frá sama tíma í fyrra.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir í tilkynningu að afkoma félagsins á öðrum ársfjórðungi er betri en á sama tíma á síðasta ári, sem sé framar vonum í erfiðu rekstrarumhverfi í alþjóðaflugi. Mikill vöxtur einkenni tímabilið, en þar muni mest um að tékkneska flugfélagið Travel Service kom inn í reksturinn. Það er nú næst stærsta félagið
í Icelandair Group og var afkoma þess góð á öðrum ársfjórðungi.
Björgólfur segir, að fyrirtæki innan samstæðunnar hafi brugðist við háu eldsneytisverði og minnkandi eftirspurn með kostnaðaraðhaldi og tekjustýringu. Rekstur Icelandair, stærsta félagsins, sé í járnum, og þar hefur verið gripið til aðhaldsaðgerða sem lofi góðu. Fram kemur í tilkynningu Icelandair Group, að viðunandi afkomu Icelandair sé að vænta 2008 þrátt fyrir áframhaldandi erfiðar markaðsaðstæður. Minni eftirspurn sé svarað með minna framboði.
Eignir Icelandair Group voru 89,8 milljarðar króna í lok júní 2008 samanborið við 66,8 milljarða í lok árs 2007. Eiginfjárhlutfall var 30% í lok júní 2008 en var 37% í ársbyrjun.
Á fyrri hluta ársins var 1,3 milljarða króna tap á rekstrinum en var 1 milljarður á sama tímabili í fyrra. Heildarvelta félagsins var 43 milljarðar króna sem er 53% aukning miðað við sama tíma í fyrra. Hagnaður af sölu eigna nam 97 milljónum króna á tímabilinu, en á sama tímabili í fyrra var 1,3 milljarða króna hagnaður af sölu eigna.