Peningamálastefnan er ekki að virka og því er ákjósanlegra að taka upp evru hér á landi til að tryggja verðstöðugleika sagði Jón Steinsson dósent í hagfræði við Columbia-háskólann í New York.
Þetta kom fram á fyrirlestri sem Jón hélt í Háskóla Íslands í hádeginu í dag um stöðu efnahagsmála. Hann sagði vandamál sem íslensk stjórnvöld horfðu fram á tvenns konar. Annars vegar væri verkefnið að ná niður verðbólguvæntingum og hins vegar að auka á trúverðugleika íslensks fjármálalífs þar sem Seðlabankinn væri lánveitandi til þrautavara.
Jón benti á að það væri dýrt fyrir ríkissjóðs að halda úti mjög stórum gjaldeyrisvaraforða. Það gæti kostað 5 til 15 milljarða á ári. Í raun væri það niðurgreiðsla skattgreiðenda á starfsemi banka svo þeir gætu gengið að hagstæðari fjármögnun í útlöndum.