Verð á hráolíu hækkaði á heimsmarkaði í dag í kjölfar ummæla orkumálaráðherra Venesúela um að hann muni leggja það til á fundi OPEC-ríkjanna í september að dregið verði úr olíuframleiðslu.
Verðið hækkaði um 2,88 dali tunnan á markaði í New York í dag og fór í 114,65 dali. Í Lundúnum hækkaði verðið um 2,65 dali og var 114,60 dalir síðdegis.
Um tíma í dag lækkaði olíuverðið niður fyrir 110 dali en hækkaði á ný eftir ummæli Rafael Ramirez, olíumálaráðherra Venesúela.