Verð á hráolíu hefur hrapað á heimsmarkaði í dag. Í New York lækkaði verðið á tunnu um 6,59 dali og var 114,59 dalir nú undir kvöld. Í Lundúnum lækkaði verð á Brent Norðursjávarolíu um 6,24 dali tunnan og var 113,92 dalir síðdegis.
Í gær hækkaði hráolía um nærri 6 dali tunnan vegna gengislækkunar bandaríkjadals, spennunnar í Georgíu og vísbendinga um að OPEC-ríkin ætli að draga úr framleiðslu. En í dag styrktist dalurinn á ný og einnig telja miðlarar, að BP muni opna olíuleiðslu sína, sem liggur um Georgíu, á ný í næstu viku.