Danski seðlabankinn mun ásamt hópi norrænna fjármálafyrirtækja kaupa Roskilde banka. Þetta kemur fram í tilkynningu, sem seðlabankinn sendi frá sér í gærkvöldi. Er þar m.a. vísað til þess, að endurskoðun á uppgjöri bankans hafi leitt í ljós meira tap en áður var talið og bankinn uppfylli því ekki kröfur um eiginfjárhlutfall.
Samkvæmt samkomulaginu munu danski seðlabankinn og Det Private Beredskab leggja til 4,5 milljarða danskra króna til að auka eigið fé bankans.
Þá segir seðlabankinn að þessi leið sé farin vegna þess að engin tilboð hafi borist, hvorki frá erlendum né innlendum aðilum, í rekstur bankans að öllu leyti eða að hluta.
Fram kemur á fréttavef Børsen, að engir kaupendur hafi fengist vegna þess, að ekki var hægt að fá nákvæmar upplýsingar um útlán Roskilde banka. Þar kemur einnig fram, að seðlabankinn greiði 37,5 milljarða danskra króna fyrir bankann.
Seðlabankinn segist líta á stöðu Roskilde banka sem afar alvarlega. Hins vegar sé talið, að yfirtakan muni draga úr þeim neikvæðu áhrifum, sem erfiðleikar bankans hafi haft í för með sér á danska fjármálakerfið.
Rekstur Roskilde banka mun halda áfram í nýjum banka, sem þó verður rekinn undir sama nafni.
Roskilde banki lenti í vandræðum vegna alþjóðlegrar lausafjárkreppu og samdráttar á danska fasteignamarkaðnum. Danski seðlabankinn veitti bankanum neyðarlán í júlí.