Verð á hráolíu fór upp fyrir 117 dali tunnan í viðskiptum í Asíu í morgun og skýrist það einkum af áhyggjum fjárfesta af fellibylnum Gustav og hvort hann muni hafa áhrif á olíuframleiðslu í Mexíkóflóa þar sem fjórðungur af hráolíu sem fer á markað í Bandaríkjunum er framleidd. Verð á hráolíu til afhendingar í október hækkaði um 90 sent og er 117,17 dalir tunnan í rafrænum viðskiptum á NYMEX markaðnum í New York.
Í gærkvöldi hækkaði verð á hráolíu um 1,16 dali tunnan í 116,27 dali á NYMEX markaðnum.
Í Lundúnum hækkaði verð á Brent Norðursjávarolíu til afhendingar í október um 66 sent og er 115,29 dalir tunnan.
Lægsta bensínverðið á höfuðborgarsvæðinu er á bensínstöðvum Orkunnar. Þar kostar lítrinn 164 krónur og dísillítrinn 179,80 krónur. Hins vegar er ódýrasta verðið á bensíni á landinu að finna hjá Orkunni á Akranesi. Þar kostar lítrinn 159 krónur og dísillítrinn 175 krónur.