Verð á hráolíu hefur hækkað umtalsvert í dag eftir að tilkynnt var um að hráolíubirgir í Bandaríkjunum hefðu minnkað mun meira en spáð hafði verið í síðustu viku. Verð á hráolíu hækkaði um 2,82 dali tunnan í 119,02 dali í viðskiptum á NYMEX markaðnum í dag.
Birgðir af hráolíu minnkuðu um 100 þúsund tunnur í 305,8 milljónir tunna í Bandaríkjunum í síðustu viku. Höfðu spár gert ráð fyrir því að þær myndu aukast um 1,5 milljónir tunna í vikunni.
Hins vegar minnkuðu bensínbirgðir mun minna heldur en spáð hafði verið. Minnkuðu þær um 1,2 milljónir tunna en sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir því að þær myndu minnka um 2,8 milljónir tunna. Engar birgðabreytingar urðu á dísil og olíu til húshitunar í Bandaríkjunum í síðustu viku.