Greiningardeild Kaupþings gagnrýnir seðlabankann

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Kristinn

Eins og útlitið er nú virðist sem Seðlabanki Íslands hafi teflt fram öllum sínum trúverðugleika við að halda vöxtum nægilega háum nægilega lengi til að ná settu 2,5% verðbólgumarkmiði innan tveggja ára. Þetta kemur fram í Hálf fimm fréttum Kaupþings þar sem peningamálastefna Seðlabankans er gagnrýnd.

Segir þar að forsenda þess að ávinna sér trúverðugleika sé að setja  raunhæf markmið sem hæfa íslenskum aðstæðum.

Lætur eins og þolmörk séu ekki til

„Ef litið er á þolmörk Seðlabanka Íslands (+/-1,5% í kringum 2,5% markmiðið) sést að verðbólgumarkmið bankans hefur svigrúm uppá 1–4% samkvæmt lögum. Þetta er raunar meiri sveigjanleiki en hjá flestum öðrum löndum á verðbólgumarkmiði. 

Hins vegar hefur Seðlabanki Íslands frá 2005 látið sem þessi þolmörk séu ekki til þegar peningamálastefnan er rökstudd og skýrð. Þess í stað miðar bankinn aðeins við einn punkt, 2,5% verðbólgu, í stað bils.  Þannig hefur verið þrengt verulega að svigrúmi Seðlabankans til þess að styðja við stöðugleika og hamla samdrætti í efnahagslífinu – samhliða því að fylgja verðbólgumarkmiðinu.

Bankinn hefur jafnframt sett trúverðugleika sinn að veði til þess að ná mjög þröngu markmiði við mjög erfiðar aðstæður – sem hefur mistekist trekk í trekk þrátt fyrir mikla hækkun stýrivaxta. Og það hlýtur að hafa veikt trúverðugleika bankans," að því er segir í Hálf fimm fréttum.

Ljóst að töluverður samdráttur er væntanlegur og raunar sýnilegur

Eins og staðan er nú virðist sem Seðlabanki Íslands hafi teflt fram öllum sínum trúverðugleika við að halda vöxtum nægilega háum nægilega lengi til að ná settu 2,5% markmiði innan tveggja ára. Þetta gerist á sama tíma og allur hinn vestræni heimur er í lausafjárþrengingum og hrávörur hafa margfaldast í verði.

„Ljóst er að töluverður samdráttur er væntanlegur – og raunar þegar sýnilegur – í efnahagslífi hérlendis. Kostnaðurinn við að hitta þetta þrönga markmið á tilætluðum tíma verður að öllum líkindum mjög hár. Á hinn bóginn – eins og Seðlabankinn hefur sett upp og jafnvel sagt með beinum orðum - mun eftirgjöf eyða öllum trúverðugleika bankans og setja framtíð sjálfstæðrar peningamálastefnu í hættu. Ljóst er einnig af þeirri gagnrýni sem Seðlabankinn hefur orðið fyrir á opinberum vettvangi að margir hafa misst trúna á gildi sjálfstæðrar peningamálastefnu.

Lykilatriðið er að geta sýnt sveigjanleika án þess að glata trúverðugleika – það er einmitt það svigrúm sem þolmörkin eiga að gefa. Jafnvel hafa sum lönd – líkt og Tyrkland – ákveðið að víkka út þolmörk sín til þess að ná þessu fram. Önnur líkt og Nýja-Sjáland hefur ákveðið að lækka vexti þrátt fyrir að verðbólga sé utan markmiðs með því loforði að verðbólgan kæmist niður fyrir þolmörk að 2-3 árum liðnum.

Ef Seðlabanki Íslands hefði sömu viðmið og Seðlabanki Nýja-Sjálands stæði hann nú frammi fyrir því verkefni að ná verðbólgu niður fyrir 4% fyrir mitt ár 2010. Þetta er mun sveigjanlegra, raunhæfara og kostnaðarminna markmið en að ætla sér að koma verðbólgunni niður fyrir 2,5% innan tveggja ára líkt og Seðlabankinn virðist nú stefna að. Og þarf ekki að skaða trúverðugleika bankans.

Þolmörkin hafa því hlutverk og Seðlabankinn ætti að taka þau aftur í notkun sem fyrst. Vel mætti hugsa sér að íslenska ríkið myndi víkka út þolmörk Seðlabanka Íslands til þess að létta undir með honum svo bankinn þurfi ekki að streða langt fyrir utan markmið í langan tíma og þannig skaða trúverðugleika sinn eða skaða hagkerfið með því að reyna ná markmiðum sem eru óraunhæf.

Forsenda þess að ávinna sér trúverðugleika er að setja sér raunhæf markmið sem hæfa íslenskum aðstæðum frekar en að setja sér of þröng markmið sem bíta af trúverðugleikanum í hvert skipti sem þau falla," að því er segir í vefriti greiningardeildar Kaupþings.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK