Verð á hráolíu til afhendingar í október hefur hækkað um 1,43 dali tunnan í dag og er 119,58 dalir í rafrænum viðskiptum á NYMEX markaðnum í New York. Í gærkvöldi var lokaverð hráolíu 118,15 dalir tunnan á NYMEX en dagshækkunin var 1,88 dalir. Brent Norðursjávarolía hefur hækkað um 1,27 dali á markaði í Lundúnum í dag er nú 117,49 dalir tunnan af olíu til afhendingar í október.
Er það einkum ótti við afleiðingar hitabeltisstormsins Gustav sem hefur haft áhrif til hækkunar í dag. Stefnir stormurinn nú í átt að vinnslustöðvum olíufélaganna í Mexíkóflóa.
Royal Dutch Shell hefur þegar flutt um 300 starfsmenn á brott af svæðinu og BP hefur hafið brottflutning starfsmanna af svæðinu.