Tap Stoða 59,5 milljarðar króna

Stoðir
Stoðir

Tap Stoða, áður FL Group, nam 59.456 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tíma í fyrra nam hagnaður FL Group 23.126 milljónum króna. Tap eftir skatta nemur 11,6 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Tapið er að mestu tilkomið vegna fjármagnskostnaðar og lækkunar á markaðsverðmæti eignarhlutar félagsins í Glitni banka, að því er segir í tilkynningu frá félaginu.

Á síðastliðnum mánuðum hafa Stoðir haldið áfram að endurskipuleggja eignasafn sitt og selt fjölmargar eignir. Hlutabréf félagsins voru skráð úr kauphöll í júní síðastliðnum, nafni félagsins var breytt í Stoðir í byrjun júlí og tilkynnt var um kaup félagsins á kjölfestuhlut í Baugi Group.

Í lok annars ársfjórðungs var eigið fé Stoða 87 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall í fjárfestingastarfsemi var 29,2%. Eftir kaup á eignarhlut í Baugi Group verður eiginfjárhlutfall (proforma) í fjárfestingastarfsemi um 35%, að því er segir í tilkynningu.

Eignir félagsins við lok annars ársfjórðungs námu 352 milljörðum króna. Á öðrum ársfjórðungi lækkaði markaðsvirði stærstu skráðu eignar Stoða, 32% eignarhlutur í Glitni banka, um 10,7% sem skilar sér í 8,9 milljarða króna tapi hjá Stoðum.

Hagnaður af reglulegri starfsemi Landic Property á fyrri helmingi ársins 2008 nam 5,4 milljörðum króna. Hagnaður félagsins var 435 milljónir króna á tímabilinu. Heildareignir félagsins í lok júní námu 592 milljörðum króna og eigið fé nam 73 milljörðum króna.

Í byrjun júlí festu Stoðir kaup á kjölfestuhlut í Baugi Group gegn greiðslu í hlutafé í Stoðum. Unnið er að frágangi viðskiptanna en með þeim mun eigið fé Stoða aukast um 25 milljarða króna.

Stoðir seldu meðal annars eignarhluti sína í Eikarhaldi og Fasteignafélagi Íslands á öðrum ársfjórðungi. Einnig er unnið að frágangi á sölu á 34,8% eignarhluta Stoða í Northern Travel Holding. Að þeim viðskiptum frágengnum munu Stoðir hafa dregið sig alfarið úr fjárfestingum í flugrekstri í samræmi við fjárfestingastefnu sem mörkuð var í árslok 2007, samkvæmt tilkynningu.

Sjá nánar um afkomu Stoða 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK