Forsvarsmenn þýska tryggingarisans Allianz greindu frá því í dag að Dresdner bankinn yrði seldur á 9,8 miljarða evra og kaupandinn væri annar stærsti banki Þýskalands Commerzbank. Er þetta í samræmi við fréttir þýskra fjölmiðla fyrir helgi. Dresdner Bank er þriðji stærsti banki Þýskalands en rekstur hans hefur ekki gengið vel.
Fjölmiðlar í Þýskalandi telja að þúsundir starfa séu í hættu vegna samruna bankanna tveggja og þykir líklegt að stjórnmálamenn muni ekki taka fréttunum vel.
Allianz, sem er stærsta tryggingasamstæða Evrópu, greiddi um 24 milljarða evra fyrir Dresdner fyrir sjö árum síðan. Áætlanir félagsins um samþættingu banka- og tryggingaþjónustu hafa hins vegar ekki gengið eftir.