Útgáfu danska fríblaðsins Nyhedsavisen hefur verið hætt og kemur blaðið ekki út á morgun. Var starfsfólki blaðsins tilkynnt þetta í pósti frá framkvæmdastjóra blaðsins og ritstjóra í kvöld. Dótturfélags 365, áður Dagsbrún, Dagsbrun Media í Danmörku hleypti Nyhedsavisen, af stokkunum en það er nú í meirihlutaeigu danska fjárfestisins Morten Lund.
Stoðir Invest, sem er í eigu Gaums, fjárfestingarfélags Jóhannesar Jónssonar og fjölskyldu, minnkuðu hlut sinn í útgáfufélaginu í júlí, úr 49% í 15%.
Á vef Børsen kemur fram að fyrir einungis þremur dögum síðan hafi Morten Lund ætlað að kaupa annað útgáfufélag fríblaðs, MetroXpress. Á föstudag var haft eftir Lund að stefnt væri að úgáfu á stóru fríblaði og að blöðin yrðu sameinuð.
Á vef Børsen á föstudag var haft eftir sérfræðingi Kaupþings í fjölmiðlum, Henrik Schultz, að hugmyndin á bak við kaupin á MetroXpress væri góð hjá Nyhedsavisen.
Lund lýsir yfir vonbrigðum sínum með það að þurfa hætta útgáfunni í tölvupósti til starfsmanna. Segist hann hafa barist til síðasta blóðdropa til þess að bjarga blaðinu sem hann og allir lykilstjórnendur hafi haft trú á en fjárhagslega hafi ekki annað verið hægt en að hætta útgáfunni. Hann mun eiga fund með starfsmönnum Nyhedsavisen í fyrramálið og skýra stöðu mála.
Þegar greint var frá því í janúar að Morten Lund hefði keypt 51% hlut í Nyhedsavisen af Baugi Group var haft eftir honum að hann hafi gert það með hagnað í huga. Í samtali
við business.dk, viðskiptavef Berlingske Tidende, sagði hann að mikil verðmæti væru í rekstrinum og spennandi verkefni framundan. Vonir
stæðu til þess að rekstur Nyhedsavisen nái núllpunkti í nóvember nk.
og fari í kjölfarið að skila hagnaði. En til þess þyrfti að hagræða mikið
í rekstri auk þess sem lesendum þyrfti að fjölga, án þess að upplagið
stækkaði.