Verð á hráolíu til afhendingar í október lækkaði á ný í dag eftir að tilkynnt var um að starfsemi olíufyrirtækjanna í Mexíkóflóa hafi verið hætt vegna komu fellibyljarins Gustavs. Telja fjárfestar að þetta þýði að tjónið vegna Gustavs verði mun minna heldur en þegar fellibylurinn Katarina reið yfir Mexíkóflóa fyrir þremur árum. Verð á hráolíu lækkaði um 76 sent og er 114,64 dalir tunnan í rafrænum viðskiptum á NYMEX markaðnum í New York.
Í Lundúnum hefur tunnan af Brent Norðursjávarolíu lækkað um 83 sent og er 113,22 dalir.
Í gær greindu stjórnvöld í Bandaríkjunum frá því að ríflega 96% af olíuframleiðslu í Mexíkóflóa hafi verið stöðvuð vegna komu Gustavs og um 82% af gasvinnslu í flóanum. Um fjórðungur af allri olíuframleiðslu Bandaríkjanna fer fram í Mexíkóflóa.