Verð á hráolíu nálgast nú 106 dali tunnan en í morgun voru viðskipti með olíu í Asíu á 106,03 dali tunnan. Skýrist lækkunin af því að fellibylurinn Gustav reyndist ekki jafn skaðlegur olíuvinnslu í Mexíkóflóa líkt og óttast var. Eins er talið að draga muni enn frekar úr eftirspurn eftir olíu í heiminum.
Verð á hráolíu til afhendingar í október var í gærkvöldi 111,12 dalir tunnan á NYMEX markaðnum í New York. Þann 11. júlí sl. reis olíuverð hæst og var 147,27 dalir tunnan og var sú hækkun sem einkenndi heimsmarkaðsverð á olíu á þeim tíma rakin til aukinnar eftirspurnar í þróunarlöndunum. En vegna versnandi efnahagsástands hefur verulega dregið úr eftirspurninni meðal annars í löndum eins og Indlandi og Kína.
Í Lundúnum lækkaði verð á Brent Norðursjávarolíu um 2,01 dal tunnan í morgun og er 107,40 dalir.