Reikningarnir vegna Nyhedsavisen hækka

Reikningarnir vegna útgáfu Nyhedsavisen í Danmörku virðast fara hækkandi og fullyrðir Berlingske Tidende í dag, að tap á starfsemi blaðsins þau tvö ár sem það kom út sé komið í um 800 milljónir danskra króna, jafnvirði 13,1 milljarðs íslenskra króna. Af lánardrottnum blaðsins mun tjón prentsmiðjunnar og danska skattsins vera mest. 

Bú útgáfufélags Nyhedsavisen hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og segir Berlingske Tidende að  Peter Krarup, skiptaráðandi, leiti að eignum í búinu. Ógreiddir auglýsingareikningar séu upp á um 7 milljónir danskra króna, skrifborð og tölvur eru metnar á um hálfa milljón og endurgreiðsla frá skattinum upp á 15 milljónir eru helstu eignirnar.

Krarup segir við blaðið, að tryggingasjóður launa muni væntanlega greiða blaðamönnum, blaðberum og skrifstofufólki þau laun, sem það á inni, samtals um 30 milljónir danskra króna.

Berlingske fullyrðir að íslenskir fjárfestar, Baugur og Stoðir Invest, hafi lagt Nyhedsavisen samtals til 700 milljónir danskra króna. Þá hafi Morten Lund lagt blaðinu samtals til 95 milljónir. Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Draper Fisher Jurvetson hafi einnig lagt blaðinu til einhverjar milljónir.

Þá segir Berlingske, að ef tap á rekstri annarra fríblaða, sem stofnuð voru til höfuðs Nyhedsavisen, sé reiknað með hafi fríblaðastríðið kostað um 1,5 milljarða danskra króna, jafnvirði nærri 25 milljarða íslenskra króna. Þá sé ekki talið með tap áskriftarblaða sem hlotist hafi af stríðinu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka