Samtök norskra útgerðarmanna, Fiskebåt, vill að norsk stjórnvöld setji innflutningsbann á mjöl og lýsi frá Íslandi á þeirri forsendu, að Íslendingar hafi veitt nærri 100 þúsund lestir af makríl án þess að hafa komið að stjórn á veiði úr sameiginlegum makrílstofni.
Á heimasíðu Fiskebåt segir Audun Maråk, framkvæmdastóri samtakanna, að Íslendingar hafi engin veiðiréttindi í makríl og veiðarnar séu því umfram heildakvótann. Þá geti Íslendingar ekki heldur vísað til veiðihefðar.
„Mest af makrílnum, sem íslensk skip veiða, fer í mjöl- og lýsisframleiðslu á Íslandi," segir Maråk.
Samtökin kvarta sáran yfir því, að Íslendingar séu enn á ný að hefja utankvótaveiðar á fiskistofnum til að reyna að tryggja sér veiðikvóta. Það sé einnig umhugsunarvert, að þessi stefna Íslendinga hafi skilað þeim árangri varðandi stofna á borð við þorsk í norðaustur Íshafi, norska vorgotssíld og kolmunna.
Það sé því í þágu norskra hagsmuna að koma í veg fyrir makrílveiðar Íslendinga. Vísa samtökin til þess, að norsk stjórnvöld hafi heimild til að stöðva innflutning á fiski, sem veiddur er utan viðurkenndrar veiðistjórnunar. Þess vegna hvetja samtökin norska sjávarútvegsráðuneytið til að banna án tafar innflutning á mjöli og lýsi frá Íslandi.
„Við vonum að Evrópusambandið fylgi þessu eftir með samskonar innflutningstakmörkunum," segir Audun Maråk.