Til að efla trúverðugleika fjárlagarammans ætti að innleiða bindandi útgjaldaþak fyrir hvert ráðuneyti yfir heilt kjörtímabil. Þak af þessu tagi myndi draga úr pólitískum þrýstingi á aukin útgjöld og auka framlag fjármálastjórnarinnar til sveiflujöfnunar, þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Viðskiptaráðs um útþenslu hins opinbera.
Viðskiptaráð Íslands hélt morgunverðarfund í morgun á Grand Hótel þar sem umfjöllunarefnið var útþensla hins opinbera; orsök, afleiðing og úrbætur. Framsögumenn voru Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, Frosti Ólafsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, og Þórður Víkingur Friðgeirsson, lektor við Háskólann í Reykjavík. Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, var með inngang í upphafi fundar.
Eins og staðan er í dag þá er einungis settur rammi um ríkisútgjöld fyrir eitt ár í senn, þ.e. hvert fjárlagaár. Undanfarin ár hafa ráðuneyti og stofnanir hins vegar farið ítrekað fram úr þeim ramma eins og Ríkisendurskoðun hefur bent á, sem gefur til kynna að rammanum sé ekki ætlað að vera bindandi þrátt fyrir að hann sé lögbundinn.
Bæði fjármálaráðuneytið og ríkisstjórnin vinna eftir ríkisútgjaldastefnu sem þau hafa sett sér. Viðmið slíkrar stefnu eru ekki lögbundin.
Aðspurður segist Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, ekki telja að lögfesta þurfi reglur um vöxt ríkisútgjalda. Að mati Árna er hið pólitíska aðhald, sem birtist í óánægju kjósenda, nóg í þessu tilliti.