Greinendur svissneska bankans UBS, eins stærsta banka í Evrópu, spá því að gengi bréfa í Kaupþingi lækki niður í 550 á næstu tólf mánuðum. Gengi bréfa í Kaupþingi var 703 við lok dags í gær. Gengi bréfa í Glitni og Landsbankanum munu á sama tíma standa í stað samkvæmt spá UBS. Þetta kemur fram í skýrslu sem UBS gaf út í gær um stöðu banka á Norðurlöndum.
UBS ráðleggur viðskiptavinum sínum að selja í íslensku bönkunum líkt og í Danske Bank. Aðrir bankar á Norðurlöndum sem eru til umfjöllunar fá kaupráðgjöf eða hlutlausa greiningu. Andreas Hakansson, greinandi hjá UBS sem vann skýrsluna, segir fjármögnun íslensku bankanna ekki vera mesta áhyggjuefni íslensku bankanna eins þátttakendur á markaði hafa haldið fram. „Ég hef meiri áhyggjur af eignasafni bankanna og einnig stöðu stærstu eigenda þeirra,“ segir Andreas.
UBS hefur tapað þúsundum milljarða á niðursveiflunni. Friðrik Már Baldursson, prófessor í Háskólanum í Reykjavík, segir erlenda greinendur hafa nóg með sig. „Þúsunda milljarða tap UBS segir sína sögu um krefjandi umhverfi.“