Tap á beinni fjárfestingu Íslendinga erlendis, svokölluð endurfjárfesting, ræður mestu um að viðskiptajöfnuður var óhagstæður um 128,1 milljarð á öðrum fjórðungi ársins eða um 38% af vergri landsframleiðslu. Halli þáttatekna hefur ekki áður mælst jafn mikill, og skýrist breytingin að mestu af tapi á beinni fjárfestingu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum. Vaxtakostnaður vegna erlendra skulda hefur einnig hækkað. Vöruskipti í fjórðungnum voru nánast í jafnvægi en þjónustujöfnuður var neikvæður um 9,4 milljarða. Gengisáhrif voru fremur lítil í ársfjórðungnum.
Hrein staða við útlönd var neikvæð um 2095 milljarða í lok annars ársfjórðungs og versnaði um 27 milljarða í ársfjórðungnum. Endurmat á hreinni stöðu í lok síðasta árs leiddi til 196 milljarða bata.