Verð á hráolíu hefur breyst lítið í rafrænum viðskiptum á NYMEX markaðnum í New York. Verð á hráolíu til afhendingar í október hefur lækkað um 17 sent tunnan og er 107,72 dalir tunnan. Í gærkvöldi var lokaverð hráolíu 107,89 dalir tunnan sem er lækkun um 1,46 dali frá miðvikudeginum.
Í Lundúnum hefur verð á Brent Norðursjávarolíu til afhendingar í október haldist óbreytt í dag í 106,30 dölum tunnan.
Hráolíuverð hefur lækkað um 27% á tæpum 2 mánuðum
Samtök eldsneytisútflytjenda munu hittast á fundi á þriðjudag í Vín og er talið að þau muni taka ákvörðun um að verja það að olíuverð fari niður fyrir 100 dali tunnan. En verð á hráolíu hefur lækkað um 40 dali eða 27% frá því það fór hæst í 147,27 dali tunnan þann 11. júlí sl.