„Efnahagsþróunin er sem stendur fremur ógnvænleg. Mikill viðskiptahalli kallar á frekari lækkun krónunnar sem er þá nauðsynleg til þess að viðskiptajöfnuður náist og þjóðin geti byrjað að jafna stöðu sína gagnvart útlöndum. Slík gengislækkun mun koma illa við skuldsett heimili og fyrirtæki,“ segir Gylfi Zoëga prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Hann gagnrýnir tölulegar upplýsingar um viðskiptajöfnuð við útlönd á öðrum ársfjórðungi sem Seðlabankinn gaf út í fyrradag. „Mikilvægt er að allar tölulegar upplýsingar opinberra aðila séu sem réttastar og viðhlítandi skýringar gefnar á því sem þar kemur fram. Gríðarstórir skekkjuliðir eru ekki til þess fallnir að auka traust á Seðlabankanum og skortur á útskýringum á þróun efnahagsmála er til þess fallinn að auka óvissu og ótta almennings.“
Í kjölfar birtingar talnanna veiktist krónan um 2% í gær og úrvalsvísitalan lækkaði um 1,5%. Það var í takt við það sem gerðist í Evrópu og á Norðurlöndunum í gær þar sem hlutabréfaverð féll víðast hvar um meira en 2%.
Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings gagnrýnir mikla óvissu í tölum Seðlabankans vegna skekkjuliðsins. Það sama gerir Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans.
Þeir sem Morgunblaðið ræddi við í gær segja jafnvel betra að sleppa birtingu þessara talna en að birta svo ófullkomin gögn sem síðan verða túlkuð á versta veg erlendis. Var mörgum mjög heitt í hamsi vegna þessa og sökuðu Seðlabankann um óvönduð vinnubrögð. Aðrir segja þetta benda til þess að stoðir hagkerfisins séu veikar og boði frekari þrengingar í efnahagslífinu.
Hann segir tölur Seðlabankans sýna þróun sem ekki komi á óvart en tölfræðin líti hins vegar undarlega út. „Tap af erlendri fjárfestingu verður nú til þess að þáttatekjurnar verða gríðarlega óhagstæðar þannig að þótt vöruskiptahallinn hafi farið minnkandi undanfarið þá sjáum við ekki fram á jöfnuð í viðskiptum við útlönd. Tölfræðin er hins vegar undarleg vegna þess að við höfum samtímis halla á viðskiptajöfnuði og halla á fjármagnsjöfnuði,“ segir Gylfi.
Þessir liðir eigi venjulega að stefna hvor í sína áttina. „Það er að segja, þegar maður lifir um efni fram þá þarf að taka lán. En þetta kemur ekki fram í gögnunum. Þess í stað er gríðarlega stór skekkjuliður upp á 184 milljarða sem er stærri en allur innflutningur á vöru og þjónustu. Þetta krefst nákvæmari skýringa til þess að róa markaðina á næstunni.“