Hlutabréfavísitölur hafa rokið upp á öllum Norðurlöndunum í morgun og gengi krónunnar hefur einnig styrkst. Gengi krónunnar hefur styrkst um 1,25% það sem af er degi. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 2,79% en SPRON hefur hækkað um 10,77%, Century Aluminum 6,25%, Exista 5,65% og Landsbankinn um 3,91%. Einungis eitt félag hefur lækkað í kauphöllinni, Eimskip um 0,32%.
Í Ósló hefur hlutabréfavísitalan hækkað um 4,21%, Kaupmannahöfn 3,67%, Stokkhólmur um 4,9% og Helsinki um 3,95%. Samnorræna vísitalan Nordic 40 hefur hækkað um 3,78%.
Gengisvísitalan var 164,60 stig þegar viðskipti hófust á gjaldeyrismarkaði klukkan 9:15 í morgun en er nú 162,55 stig. Bandaríkjadalur stendur í 87,25 krónum, pundið er 153,40 krónur og evran 123,65 krónur. Veltan á millibankamarkaði er komin í 10,9 milljarða króna, samkvæmt upplýsingum frá gjaldeyrisborði Glitnis.