Morten Lund, sem auðgaðist gríðarlega á að selja netsímafélagið Skype til eBay árið 2005, segist á bloggsíðu sinni vera orðinn blankur eftir aðkomu sína að útgáfu Nyhedsavisen. Hann segist hafa eytt 105 milljónum danskra króna, jafnvirði 1,8 milljarða íslenskra króna, sem hann hafi tekið af láni.
„Afar slæm ákvörðun," segir Lund.
Einnig segist Lund hafa reynt að fá David Montgomery, aðaleiganda breska fjárfestingarfélagsins Mecom, sem m.a. á Berlingske Tidende, til að kaupa Nyhedsavisen.
„Þið getið sagt að ég sé heimskur og óáreiðanlegur, það er í lagi, ég klúðraði málunum. Ég axla alla ábyrðina. Þetta voru mínir peningar og allt það fé sem ég hafði aðgang að. Þess vegna verða næstu 18-24 mánuðir hreint helvíti. En ég ætla að halda áfram að fjárfesta í fyrirtækjum. Ég er óttasleginn en ég hætti ekki. Ég ætla að fara aftur í fjárfestingar þótt ég sé peningalaus," skrifar Lund.
Hann segir skýringuna á óförunum þá, að sölutekjur hafi ekki verið í samræmi við áætlanir.