Gengi hlutabréfa bandaríska flugfélagsins United Airlines lækkaði um 75% í gær þegar frétt birtist á vef fréttaveitunnar Bloomberg um að félagið ætlaði að óska eftir greiðslustöðvun. Fréttin reyndist hins vegar vera frá árinu 2002 og hafði birst á ný fyrir röð mistaka.
Svo virðist sem fréttin sé ættuð úr gagnasafni blaðsins Chicago Tribune og hafi birst einhverra hluta vegna á fréttavef blaðsins Sun Sentinel í Flórída síðdegis á sunnudag. Fjármálaþjónusta á Flórída sá fréttina í Google-leit og sendi hana til Bloomberg sem birti hana fréttavef sínum klukkan 10:55 í gærmorgun að bandarískum tíma.
Fréttin vakti að vonum mikla athygli fjárfesta sem kepptust við að losa sig við bréf United. Klukkan 10:56 var gengi bréfanna skráð 11,51 dalur, en það hrundi á næstu sekúndum niður í 3 dali. Viðskipti með bréfin voru stöðvuð með bréfin í kjölfarið en þau hófust aftur klukkan 11:01. Klukkan 11:08 dró Bloomberg fréttina til baka og klukkan 12:29 var gengi bréfanna komið í 11:30 dali.
Flugfélagið hefur krafist rannsóknar á því hvers vegna röng frétt um það hafi birst. Hugsanlegt er að bandaríska fjármálaeftirlitið láti málið til sín taka.
United Airlines fékk greiðslustöðvun árið 2002 en henni lauk árið 2006. Nú er verið að skera niður rekstrarkostnað hjá félaginu til að mæta háu eldsneytisverði og verður m.a. 7000 starfsmönnum sagt upp.